Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata, sem ákvað að bjóða sig ekki fram fyrir nýafstaðanar kosningar til Alþingis, segir í viðtali við Fréttablaðið að hann myndi íhuga það að þiggja ráðherrastarf eftir tilvikum ef honum yrði boðið það.

Hann bætir við að hann myndi ekki gera það valdanna vegna og telur það sjúkt að þrá völd og vorkennir hann fólki sem gerir það. „Vald er viðbjóður og fer illa með sumt fólk,“ er haft eftir honum í Fréttablaðinu.

Helgi Hrafn segir jafnframt að það séu margar ástæður fyrir því að hann ákvað að hætta á þingi. Hann hafi valið það að vera óbrettur borgari þetta kjörtímabil. Að hans sögn þótti honum ekki gaman að vera stjórnmálamaður.

Píratar samþykktu á þessu ári tillögu þess efnis að flokkurinn hafni aðkomu að ríkisstjórn þar sem að þingmenn eru einnig ráðherrar. „Ekki er tekið fram hvort það eigi að gera með því að fá utanþingsráðherra, eða krefjast þess að ráðherrar víkji úr sæti á þingi á meðan þeir gegna embættinu. Vel má hugsa sér að í einni ríkisstjórn megi finna hvort tveggja. Með tillögunni er lagt til að gert skuli að algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á. Gildir þar einu hvort Píratar væru leiðandi í stjórnarsamstarfi eða ekki. Þó er vert að hafa í huga að orðalagið útilokar ekki að Píratar verji minnihlutastjórn annarra flokka, sem skipuð er þingmönnum, falli,“ segir í tillögunni.

Eins og sakir standa fundar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, með fulltrúum Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Samfylkingar, um forsendur málefnagrundvallar til stjórnarmyndunar þessara fimm flokka.