Hlustendur Sprengisands á Bylgjunni og lesendur Vísis völdu Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, sem stjórnmálamann ársins 2015 . Helgi Hrafn er þingmaður Pírata og hafði hann betur en forsætis- og fjármálaráðherrar sem lentu í öðru og þriðja sæti.

Helgi Hrafn hlaut rúm 22% atkvæða, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 21,4% og Bjarni Benediktsson 20,6%. Í fjórða sæti var Katrín Jakobsdóttir með u.þ.b. 10% atkvæða.

Undanfarin misseri hafa Píratar mælst stærsti stjórnmálaflokkur Íslands í skoðanakönnunum. Haldi Píratar því fylgi sem þeir mældust með síðast fengju þeir 19 þingsæti í næstu kosningum, en á þessu kjörtímabili eru þingmenn Pírata einungis þrír.

,,Við höfum samþykkt stefnu í okkar röðum hvað varðar myndun stjórnar á næsta kjörtímabili," sagði Helgi Hrafn í Sprengisandi.

,,Aðaláhersla á næsta kjörtímabili ef við fengjum stjórnarmyndunarumboð væri að koma á nýju stjórnarskránni, semsagt frumvarpi stjórnlagaráðs, og halda þjóðaratkvæðagreiðslur um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Þetta er það sem við leggjum upp með."