Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins, segir að gestafjöldinn í Smáralind fyrstu tíu dagana eftir opnun fyrstu verslunar H&M á Íslandi í verslunarmiðstöðinni hafi verið um 170 þúsund manns.

Það samsvarar um helmingi íslensku þjóðarinnar, en á einungis fyrstu sex dögunum sem verslunin var opin voru seldar vörur fyrir um 169 milljónir króna að því er fram kemur á facebook síðu forstjórans.

„Aukningin nemur tugum prósenta. Við höfum aldrei séð annað eins,“ segir Helgi í samtali við Morgunblaðið. „Þetta eru frábærar tölur og framundan eru svo mestu verslunarmánuðir ársins.“

Þegar þessar sölutölur eru svo skiptar niður á hvern fermetra verslunarrýmis þá telst salan á ári nema um 2,2 milljónum á fermetrann. „Þetta er algert met og hefur ekki sést hér áður mér vitandi. Það þykir frábært að vera með sölu sem nær 800 þúsund krónum á fermetra.“

Helgi segist ekki alveg búast við að þessar sölutölur haldi sér, þó hann sé spenntur fyrir næstu mánuðum, en hann segir að daglegar heimsóknir í Smáralindina séu nú á bilinu 14 til 20 þúsund.