Fjárfestirinn Helgi Magnússon, sem m.a er fyrrverandi formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins og stjórnarmaður í N1, bætti í dag við hlutafjáreign félagsins Hofgarðar í N1. Fram kemur í tilkynningu til kauphallarinnar að félagið Hofgarðar, sem er í eigu Helga, hafi keypt þrjár milljónir hluta í N1. Kaupin voru gerð á genginu 18 krónur á hlut. Miðað við það nam kaupverðið 54 milljónum króna.

Á föstudag í síðustu viku greindi VB.is frá því að félagið Hofgarðar hafi keypt fjórar milljónir hluta á genginu 17,8 krónur á hlut.

Fram kemur í tilkynningu N1 í dag að Hofgarðar eiga 10.025.000 hluti í N1. Miðað við gengið 18 krónur á hlut nemur markaðsverðmæti þeirra rétt rúmum 180 milljónum króna.