*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 5. ágúst 2016 11:10

Helgi Kolviðsson nýr aðstoðarþjálfari landsliðsins

KSÍ hefur ráðið Helga Kolviðsson sem aðstoðarmann Heimis Hallgrímssonar hjá íslenska landsliðinu.

Ritstjórn
Helgi Kolviðsson er nýr aðstoðarþjálfari landsliðsins.

Helgi Kolviðsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Þetta var staðfest á blaðamannafundi Knattspynusambands Íslands rétt í þessu.

Líkt og flestum er kunnugt steig Lars Lagerback til hliðar sem landsliðsþjálfari eftir glæsilegan árangur Íslands á EM 2016 í Frakklandi, en hann hafði stýrt landsliðinu ásamt Heimi undanfarin fjögur ár. Fyrir mótið var ljóst að Lars myndi hætta og Heimir yrði áfram og þurfti sá síðari þá að fá aðstoðarmann.

Nú hefur Helgi orðið fyrir valinu, en hann á farsælan feril að baki sem atvinnumaður og þjálfari. Lék hann um árabil í Þýskalandi og Austurríki og spilaði alls 29 landsleiki. Að ferlinum loknum tók hann við þjálfun SC Pfullendorf í Þýskalandi en þar að auki þjálfaði hann austurrísku félögin Austria Lustenau í þrjú ár, SC Wiener Neurstadt í eitt ár og nú síðast SV Ried.

Helgi var einn af þeim þjálfurum sem voru Heimi og Lars til aðstoðar á EM í Frakklandi.