Aðalfundur Fiskifélags Íslands var haldinn 13. mars síðastliðinn á Grand hótel, Reykjavík, að því er segir í tilkynningu félagsins. Fundurinn var fjölsóttur. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru umhverfismál sjávarútvegs rædd og sköpuðust líflegar umræður og þá aðallega um umhverfismerki.

„Á fundinum var rætt um framtíð félagsins og ákveðið að meginverkefni þess á næstu árum myndi snúast um gerð umhverfismerkis fyrir íslenskan sjávarútveg. Pétur Bjarnason gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku hjá Fiskifélaginu en hann hefur gegnt formennsku í félaginu um nálega tíu ára skeið. Helgi Laxdal var kjörinn formaður í hans stað. Jóhannes Pálsson kom nýr inn í stjórnina.

Stjórn Fiskifélags Íslands skipa nú: Helgi Laxdal formaður, Kristján Þórarinsson varaformaður, Elínbjörg Magnúsdóttir ritari, Aðalsteinn Baldursson, Árni Bjarnason, Gunnar Tómasson, Kristján Loftsson, Jóhannes Pálsson, Sævar Gunnarsson og Örn Pálsson,“ segir í tilkynningunni.