Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari er ekki vanhæfur til að gefa út ákæru í máli gegn Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna brots á þagnarskyldu og brots í opinberu starfi, að mati Héraðsdóms Reykjavíkur. Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður Gunnars, krafðist frávísunar í máli Ríkissaksóknara gegn Gunnari þar sem Helgi Magnús hafði keppt við Gunnar um forstjórastöðuna fyrir þremur árum. Þar hafði Gunnar betur.

Í niðurstöðu héraðsdóms í dag segir m.a. að 19 hafi sótt um forstjórastöðuna á sínum tíma.

„Að mati dómsins eru hér um alls óskyld atriði að ræða. Sú staðreynd að vararíkissaksóknari sótti einnig um stöðuna getur ekki valdið því að hann verði talinn vanhæfur til meðferðar þess máls sem hér er til meðferðar. Verður kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá dómi hafnað.“

Kröfu lögmanns Gunnars var af þessum sökum vísað frá.

Niðurstaða héraðsdóms