Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, mótmælti kröfu lögmanns Gunnars Andersen um að sakamáli á hendur Gunnari væri vísað frá vegna vanhæfis Helga. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sagði Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður Gunnars, að þar sem Helgi Magnús laut í lægra haldi fyrir Gunnari þegar hinn síðarnefndi var ráðinn forstjóri FME væri ástæða til að draga óhlutdrægni Helga í efa. Um persónulegt áfall og hnekki fyrir Helga hafi verið að ræða.

Helgi sagði aftur á móti að þær lýsingar sem fram hefðu komið í máli Guðjóns vegna hugsanlegrar vanlíðan hans væru hlægilegar og baðst hann afsökunar á því að hafa undir málflutningi Guðjóns verið nærri því að skella upp úr.

Helgi sagðist aldrei hafa lýst neinni vanlíðan vegna þess að hafa ekki hlotið embætti forstjóra FME og hafa verði í huga að nítján hafi sótt um embættið. Því sé rangt að lýsa því þannig að Helgi hafi sérstaklega verið að keppa við Gunnar. Þá sagði hann að í máli Guðjóns hafi hvergi verið bent á fordæmi sem sé sambærilegt við aðstæður í þessu máli. Sagði hann að í lögum væri talað um að dómari eða saksóknari ætti að víkja ef þær aðstæður væru til staðar sem gerðu það að verkum að draga mætti með réttu hæfi hans í efa. Sagði Helgi að ef kröfur Gunnars væru teknar til greina væru fá tengsl sem ekki myndu leiða til vanhæfis. Spurði hann hvort dómari eða saksóknari ætti að víkja sæti ef þeir hefðu spilað saman fótbolta tíu árum áður.