Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Hörpu, gefur kost á sér sem formaður Samtaka iðnaðarins (SI) á aðalfundi samtakanna, segir tilkynningu

Aðalfundurinn (Iðnþing) fer fram fer þann 17. mars næstkomandi. Vilmundur Jósefsson, núverandi formaður, gefur ekki kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið formaður síðastliðin sex ár sem er hámarkstími samkvæmt lögum samtakanna.

Helgi átti sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins á árunum 1995 til 2001. Hann var framkvæmdastjóri Hörpu og síðar Hörpu Sjafnar, eftir sameiningu, alls í 12 ár en hann og aðrir hluthafar seldu fyrirtækið til Flügger í Danmörku fyrir rúmu ári.

Helgi er áfram formaður stjórnar þess fyrirtækis á Íslandi. Hann á einnig sæti í stjórnum þriggja annarra fyrirtækja sem eiga aðild að Samtökum iðnaðarins og er hluthafi í þeim í gegnum fjárfestingarfélög sín. Þar er um að ræða Bláa lónið hf., Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. og Marel hf.

Helgi hefur átt sæti í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana. Meðal þeirra eru: Lífeyrissjóðurinn Framsýn í átta ár, Þróunarfélag Íslands, Íslandsbanki í átta ár, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Átak til atvinnusköpunar, Íslenskur markaður hf., Snorri Þorfinnsson ehf. og Verslunarráð Íslands.

Eiginkona hans er Arna B. Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau eiga þrjú börn á aldrinum 9-17 ára.

Helgi segist hafa fengið mjög ákveðna hvatningu til að gefa kost á sér til formennsku frá mörgum frammámönnum í íslenskum iðnaði.