Helgi Magnússon ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Undanfarið hefur verið uppi umræða um hvort eðlilegt sé að hann sitji í stjórn lífeyrissjóða sem fjárfesta í fyrirtækjum sem hann situr í stjórn og fjárfestir einnig persónulega í. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður samtaka Iðnaðarins, hefur verið tilnefnd til setu í stjórn lífeyrissjóðsins og mun taka þar sæti í mars nk. Tilnefning er til næstu þriggja ára.

Á aðalfundi SI var ákveðið að stjórn samtakanna skyldi setja sér starfsreglur sem unnið hefur verið að síðustu mánuði og voru þær samþykktar á stjórnarfundi nú í janúar. Þar er m.a. rætt um tilnefningar samtakanna í hinar ýmsu stjórnir. Sérstök valnefnd skal leggja fram tillögu til stjórnar um tilnefningar í stjórnir lífeyrissjóða. Sett er 6 ára hámark á setu stjórnarmanna SI í lífeyrissjóðum sem er í samræmi við hámarkssetutíma í stjórn SI og er einnig í samræmi við reglur SA um sama efni.

Guðrún Hafsteinsdóttir er fjórði forystumaður iðnaðarins sem tekur sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Davíð Sch. Thorsteinsson og Víglundur Þorsteinsson áttu sæti í stjórn sjóðsins um árabil og Helgi Magnússon hefur setið í stjórninni sl. 9 ár.