Á meðan gjaldeyrishöft eru ríkjandi hér er afar mikilvægt að lífeyrissjóðirnir finni fjárfestingar innanlands sem hafi erlent tekjustreymi. „Það á við um stóran hluta af þeim hlutafélögum sem við höfum fjárfest í,“ segir Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Helgi bendir á það í viðtali við Viðskiptablaðið að um síðustu áramót hafi bókfært verð hlutabréfa í eigu sjóðsins verið um 49 milljarðar króna. Þar af voru 85% eignanna í fyrirtækjum sem eru með tekjustreymi sitt að stórum hluta eða öllu leyti í erlendri mynt. Má þar t.d. nefna Össur, Marel, Icelandair, Eimskip, Granda og Framtakssjóðinn.

Framkvæmdum fyrir hundrað milljarða rutt út af borðinu

Helgi segir að fljótlega eftir hrun hafi verið farið í viðræður milli lífeyrissjóðanna og ríkisins um fjármögnun á umfangsmiklum samgöngubótum.

„Kristján Möller, þáverandi samgönguráðherra, fór fyrir þeim viðræðum og tók með sér fulltrúa allra flokka í þær. Hugmyndin var sú að lífeyrissjóðirnir myndu fjármagna samgönguumbætur um allt land, breikkun vega og brúa og hugsanlega einhver göng. Framkvæmdirnar myndu kosta á bilinu 100-150 milljarða og vera fjármagnaðar með láni frá sjóðunum. Rætt var um að lánið yrði til fjörutíu ára og að ekkert yrði greitt af því fyrstu fimm árin á meðan opinber gjaldtaka af umferðinni hefði verið endurmetin. Þetta hefði getað orðið til þess að sparka hagkerfinu í gang aftur, dregið mjög úr atvinnuleysi og aukið umferðaröryggi. Skömmu áður en þetta hefði getað farið í gang var hins vegar skipt um ráðherra og Ögmundur Jónasson, sem tók við af Kristjáni, sló málið út af borðinu. Samgönguframkvæmdir af þessari stærðargráðu er í raun aðeins hægt að fara í á krepputímum og ég ætla að við höfum misst af þessu tækifæri,“ segir Helgi.

Ítarlega er rætt við Helga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild sinni hér að ofan undir liðnum tölublöð.