Helgi Magnússon, stjórnarformaður Húsasmiðjunnar og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, keypti í dag 477 þúsund hluti í Marel fyrir rétt rúma 71,5 milljónir króna. Viðskiptin voru gerð á genginu 157,5 krónur á hlut.

Helgi keypti hlutina í gegnum einkahlutafélag sitt Hofgarða. Helgi hefur setið í stjórn Marel síðastliðin sjö ár.

Stýrir milljarðahlutum í Marel

Fram kemur í tilkynningu vegna kaupanna að eignir fjárhagslega tengdra aðila, eins og Helgi er nefndur, eigi eftir viðskiptin 5.785.044 hluti í Marel. Miðað við markaðsverðmæti hluta félagsins í dag nemur verðmæti eignarhlutarins 925,6 milljónum króna.

Helgi stýrir jafnframt fjölskyldufélaginu Eignarhaldsfélagi Hörpu sem á verulegan hlut í Marel. Í Viðskiptablaðinu fyrir hálfum mánuði var áætlað að verðmæti eignarhlutar félagsins nemi um 800 milljónum króna.

Gengi bréfa Marel hefur hækkað um 280% frá hruni

Gengi hlutabréfa Marel lækkaði verulega í hruninu. Það var við 100 krónur á hlut árið 2007 en var komið niður í rétt rúmar 40 krónur á hlut fyrir þremur árum síðan. Frá þeim tíma hefur gengið hækkað um rúm 280%.

Helgi jafnframt formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Sjóðurinn er þriðji stærsti einstaki hluthafi Marel með 6,81% hlut. Ætla má að verðmæti hlutarins nemi 7,8 milljörðum króna.

Helgi á stóran eignarhlut í Bláa Lóninu í gegnum félagið Hofgarða og er stjórnarformaður lónsins í krafti eignarhlutarins. Eigið fé Hofgarða var 144,7 milljónir króna samkvæmt uppgjöri félagsins í lok árs 2010. Verðmæti óskráðra eigna félagsins nam þá 190 milljónum króna á móti heildarskuldum upp á 183,9 milljónir.