Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir Helga Vilhjálmsson, oftast kenndan við Góu, ráðst með lágkúrulegum hætti að lífeyrissjóðum með opnuauglýsingum sínum. Þetta kemur fram í aðsendri grein Helga í Morgunblaðinu í dag.

Helgi skrifar undir fyrirsögninni "Páskabrella súkkulaðiforstjórans" og kallar Helga auðmann úr Hafnarfirði.

Helgi Magnússon sakar Helga í Góu um að hafa oft gert atlögur að lífeyrissjóðum í aðdraganda páskana. "Þessi vorboði segir okkur að nú sé stutt í páska og sala á páskaeggjum í aðsigi. Það er ekki annað hægt en að gruna þennan athafnamann um þá græsku að ætla með einkennilegum málflutningi sínum um lífeyrissjóði að vekja athygli á sér og páskaeggjaframleiðslu sinni í enn eitt skiptið. Þessi aðferð Góuforstjórans er óttalegur dónaskapur við fólkið í landinu og fjölmiðla. Með þessari háttsemi sinni er hann að ætla okkur það að við séum svo grunnhyggin að við sjáum ekki í gegnum markaðsbrellur. Það er verið að freista þess að vekja athygli á framleiðsluvörum Góu þegar páskaeggjakauptíðin fer í hönd. Sem betur fer erum við neytendur ekki svo einfaldir að við látum plata okkur með slíkum hætti," skrifar Helgi Magnússon í Morgunblaðið í dag.

Helgi Magnússon er jafnframt formaður Samtaka Iðnaðarins.