Eignarhaldsfélag Hörpu ehf., félag í meirihlutaeigu Helga Magnússonar, formanns stjórnar Samtaka iðnaðarins, átti í lok árs 2009 skráð markaðshlutabréf fyrir rúmlega 410 milljónir króna. Heildareignir eru samkvæmt ársreikningi félagsins rúmlega 500 milljónir króna. Eignir félagsins minnkuðu um rúmlega 70 milljónir milli ára. Munar þar ekki síst um að bankainnstæður voru 70,4 milljónir í lok árs 2008 en voru 19 milljónir í lok árs 2009.

Stór í Marel

Eignarhaldsfélag Hörpu er meðal 20 stærstu hluthafa í Marel og hefur virði eignarhlutar félagsins hækkað mikið samhliða miklum hækkunum á gengi bréfa í félaginu. Samtals á félagið 0,73% hlut í Marel, sem gerir það að 17. stærsta eiganda félagsins.

Á félagið ekki einn

Helgi er ekki eini eigandi félagsins. Hann á 56% hlut í því. Aðrir eigendur eru Sigurður Gylfi Magnússon með 21% hlut, Þóra Guðrún Óskarsdóttir með 16% hlut og aðrir með 7% hlut.

Helgi er jafnframt stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem er fjórði stærsti hluthafinn í Marel. Samtals á sjóðurinn 46,6 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem nemur 6,3% hlut í fyrirtækinu. Markaðsvirði þess hlutar er í dag um sex milljarðar króna. Með Helga í stjórn sjóðsins eru Ásta R. Jónsdóttir, Benedikt Kristjánsson, Benedikt Vilhjálmsson, Bogi Þ. Siguroddsson, Hannes G. Sigurðsson og Stefanía Magnúsdóttir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.