Helgi Þór Ingason er nýr forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, a.m.k. tímabundið. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í kvöld. Samkomulag milli Haraldar Flosa Tryggvasonar, stjórnarformanns OR, og Hjörleifs Kvaran, fráfarandi forstjóra,  þess efnis að Hjörleifur myndi hætta störfum þegar í stað var kynnt á stjórnarfundi sem hófst klukkan 19:00 í kvöld.

Starf forstjóra OR verður auglýst á næstunni og var Haraldi Flosa falið að hafa umsjón með því.

Helgi Þór Ingason er 45 ára, dósent í véla- og iðnaðarverkfræði og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnum í Háskóla Íslands. Hann lauk M.Sc. prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1991, doktorsprófi í framleiðsluferlum í stóriðju frá tækniháskólanum í Þrándheimi 1994 og SCPM prófi í verkefnastjórnun frá Stanfordháskóla 2009. Hann hefur hlotið alþjóðlega vottun  sem verkefnisstjóri. Helgi Þór hefur starfað sem verkefnisstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins og gæðastjóri verkfræðistofunnar Línuhönnunar, nú Eflu verkfræðistofu. Hann er annar tveggja frumkvöðla Als álvinnslu hf. og hefur verið stjórnarformaður félagsins og áður framkvæmdastjóri.