Nýverið urðu forstjóraskipti hjá Sjóklæðagerðinni 66°NORÐUR. Halldór G. Eyjólfsson sem stýrt hefur fyrirtækinu frá árinu 2006 sagði starfi sínu lausu og nú hefur nýr forstjóri verið ráðinn til starfa.

Fyrirtækið hefur sent frá sér fréttatilkynningu um forstjóraskiptin. Viðskiptablaðið greindi einnig frá ráðningunni í dag.

„Helgi Rúnar Óskarsson er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist frá San Diego State University árið 1993. Helgi starfaði sem markaðsstjóri tímaritaútgáfunnar Fróða hf. frá 1993 til 1996. Hann stofnaði Subway Danmark A/S árið 1996 og rak fyrirtækið til ársins 2001. Árið 2001 festi hann kaup á Dale Carnegie á Íslandi og stjórnaði því til ársins 2006 þegar hann seldi félagið og réð sig til Glitnis sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs. Síðastliðin tvö ár hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi.

Fyrsta verk Helga sem forstjóra var að fara til Þýskalands á ISPO sem er stærsta sölusýning á íþrótta- og útivistarvörum í Evrópu. Sýningin gekk framar björtustu vonum þar sem Snæfell jakkinn frá 66°NORÐUR vann ISPO Outdoor Awards sem besta flíkin í sínum flokki. Það er því óhætt að segja að framtíð fyrirtækisins sé björt og gaman verður að fylgjast með 66°NORÐUR undir stjórn Helga Rúnars,“ segir í tilkynningunni.