„Það setur slæman blett á störf þingsina að í stað þess að eiga efnislega umræðu við þingmenn grípur hæstvirtur forsætisráðherra ítrekað til þess að saka aðra þingmenn um ósannindi,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

„Hálfu verra er það þegar í ljós kemur að sá sem í þeim deilum fer með rangt mál er hæstvirtur forsætisráðherra í stól Alþingis,“ bæti Helgi við. Hann sagði að þetta hefði gerst síðast í gær  þegar forsætisráðherra hafi sagt að tillögur ríkisttjórnarinnar um lækkun barnabóta væru rangar getgátur Árna Páls Árnasonar.

Helgi sagði því að sem hæstvirtur forsætisráðherra hafi sagt þingheimi að væru rangar getgátur hefði í raun verið formleg skrifleg tillaga ríkisstjórnar hans sjálfs. Tillagan hefði verið stíluð á formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, og send úr fjármálaráðuneytinu fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands.

Helgi sagði því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði orðið ber að því að ásaka aðra þingmenn um það að fara með rangt mál en væri sjálfur að villa um fyrir þingheimi. Hann sagði að forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, yrði að láta þetta mál til sín taka. „Einhverjar reglur verða að gilda hér í húsinu,“ sagði Helgi Hjörvar.