*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 1. september 2021 11:01

Helgi selur 6% hlut sinn í Bláa Lóninu

Helgi Magnússon hefur selt eignarhlut sinn í Bláa Lóninu og lætur af störfum sem stjórnarformaður fyrirtækisins.

Ritstjórn
Helgi Magnússon

Helgi Magnússon hefur selt allan hlut sinn í Bláa Lóninu til fjárfestingafélagsins Stoða. Hofgarðar, eignarhaldsfélag Helga, var fyrir kaupin fjórði stærsti hluthafi Bláa Lónsins með 6,2% hlut. Helgi staðfesti þetta við Markaðinn en gaf ekki upp kaupverðið.

Helgi fjárfesti fyrst í Bláa Lóninu fyrir sautján árum síðan og tók þá sæti stjórn félagsins. Síðustu ár hefur hann gegnt stjórnarformennsku fyrirtækisins en lætur nú af stjórnarstörfum.

„Ég hef tekið þátt í því stórkostlega ævintýri sem rekstur, þróun og uppbygging Bláa Lónsins hefur verið. Það hefur verið einstaklega áhugavert og gefandi viðfangsefni í alla staði. Í stjórninni hef ég unnið með fjölmörgu frábæru fólki og eins þeim sem sjá um rekstur félagsins frá degi til dags. Þar er fremstur í flokki forstjórinn, Grímur Sæmundsen, stofnandi og frumkvöðull fyrirtækisins allt frá upphafi,” er haft eftir Helga í frétt Markaðarins.

Helgi er stærsti hluthafi Torgs ehf., útgefanda Fréttablaðsins og DV.