Yfirlögfræðingur Nýja Kaupþings banka, Helgi Sigurðsson, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu frá og með deginum í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi en þar segir Helgi ákvörðunina tekna í því skyni að skapa frið um bankann og enduruppbyggingu hans.

Þá kemur fram að töluvert hafi verið fjallað um aðkomu Helga að kaupréttarsamningum starfsmanna gamla Kaupþings. Í tilefni af því tekur bankinn fram að stjórn Kaupþings hafi farið fram á lögfræðiálit frá tveimur utanaðkomandi lögfræðingum þeim, Viðari Má Matthíassyni lagaprófessor og Herði Felix Harðarsyni hrl., til að meta lögmæti ákvörðunar gamla Kaupþings.

„Samkvæmt álitum þeirra hefur stjórn Nýja Kaupþings ekki heimild til að rifta ákvörðun stjórnar gamla bankans. Stjórn Nýja Kaupþings ætlar hins vegar ekki að afskrifa lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa á meðan kæra hluthafa vegna lánanna er til meðferðar hjá sérstökum saksóknara,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Helgi Sigurðsson hefur ekki tekið þátt í störfum núverandi stjórnar þegar starfsmannalán hafa verið rædd og ekki setið fundi þar sem ákvarðanir um þau voru teknar.