Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ákvörðun um hvort að fyrirtækið kaupi þrjár túrbínur frá Mitsubishi sem ætlaðar eru í Hverahlíðarvirkjun verði tekin í nóvembermánuði.

Hann staðfestir að ef túrbínurnar verði ekki keyptar þá verði ekki til næg orka til að álverið í Helguvík geti tekið til starfa, en Hverahlíðarvirkjun á að framleiða um 90 MW af orku.

„Við erum í endurskoðun á fjárhagsáætlun og þar metum við hvort við höldum áfram með ýmsar framkvæmdir sem hafa verið í pípunum hjá Orkuveitunni. Ég hef lýst því yfir að vel komi til greina að hætta við Hverahlíðarvirkjun. Þá er Helguvíkurverkefnið í uppnámi.“

Umræddar túrbínur kosta samtals fimmtán milljarða króna. Orkuveitan er hefur verið að greiða háar upphæðir vegna þess að hún þurfti að seinka afhendingu þeirra. Hjörleifur segir að nú sé í fullri alvöru rætt um að hætta við móttöku þeirra.

„Við erum að skoða hvort við föllum frá kaupunum. Það er líka vegna þess að það er ekki búið að fjármagna Helguvík og þeir sem standa að því verkefni hafa ekki gert skuldbindandi samning við okkur.“

Matið gerir fjármögnun erfiðari

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s lækkaði lánshæfismat Orkuveitunnar niður í svokallaðan ruslflokk í gær. Orkuveitan er að mestu í eigu Reykjavíkurborgar. Hjörleifur segir að mat Moody´s hafi ekki áhrif á getu Orkuveitunnar til að greiða þær skuldir sem eru á gjalddaga á næsta ári.

„Við tókum lán hjá Evrópska Fjárfestingabankanum (innsk. blaðam. upp á 30 milljarða króna) og matið hefur ekki áhrif á það. Lánið er framkvæmdalán til meðal annars til að fjármagna helminginn af Hellisheiðarvirkjun. Við vorum búnir að fjármagna það að hluta til með skammtímalánum sem við greiðum upp með láni Evrópska Fjárfestingabankans. Við erum því í ágætum málum vel fram á næsta ár og bara það að hafa fengið þetta lán hjálpar okkur að fá lán annarsstaðar. En matið gerir framtíðarfjármögnun auðvitað erfiðari. Það er ekkert skemmtilegt að vera í þessum flokki. En þegar við sáum mat ríkisins þá vissum við að við yrðum flokki neðar. Ábyrgð sveitarfélaga er alltaf flokki fyrir neðan ábyrgð ríkisins. Við erum með ágæt þolmörk og getum staðið í skilum með afborganir af reikningum og lánum.“

Spár opinberra aðila um styrkingu gengis hafa ekki gengið eftir

Vandi Orkuveitunnar stafar fyrst og fremst af því að þorri tekna hennar er í íslenskum krónum en bróðurpartur skulda í erlendum gjaldeyri. Því hefur hrun krónunnar haft mikil áhrif á stöðu fyrirtækisins til hins verra. Aðspurður um hversu lengi Orkuveitan geti þolað að krónan sé jafn lág og raun ber vitni segir Hjörleifur að engin hætta sé á því að fyrirtækið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

„En á meðan að ástandið í gengismálum er svona og krónan styrkist ekki þá höldum við áfram að vera í verulegum vandræðum eins og fjöldi annarra fyrirtækja. Það er búið að vera að segja þjóðinni í mjög langan tíma að gengið sé að fara að styrkjast. Það var sagt að það myndi styrkjast við að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það gerðist ekki. Það var sagt að það myndi styrkjast við að Icesave-málið yrði klárað. Það gerðist ekki. Gengið átti líka að styrkjast þegar að búið væri að ganga frá endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það gerðist ekki heldur. Allar spár sem opinberir aðilar hafa gefið út, það hefur engin þeirra staðist.“