Samningur Orkuveitu Reykjavíkur vegna Helguvíkurálversins hefur verið framlengdur og uppfærður að sögn Guðlaugs G. Sverrissonar, formanns stjórnar OR.

Eins og komið hefur fram áður hér á vefnum þá samþykkti stjórn OR samninginn fyrr í dag.

Um er að ræða verkefni sem á að standa til 2013 og OR hefur skuldbundið sig til að afhenda orkuna á ákveðnum tímapunkti samkvæmt samningnum.

En ef ekki verður farið af stað með framkvæmdir í Helguvík fellur samningurinn niður. OR er að skuldbinda sig til að afhenda 175 MW sem er aukning á skuldbindingu um 75 MW. Sú skuldbinding er miðuð við að ekki finnist annar kaupandi að orkunni sem myndi vilja nýta hana í Ölfussinu fyrir 1. júlí 2009.

OR hafði skuldbundið sig til að láta 100 MW af hendi vegna Helguvíkurálversins en eykur þá skuldbindingu upp í 175 MW. Einnig eru skilyrt loforð fyrir 75 MW til viðbótar frá OR ef ráðist verður í framkvæmdina.

„Auðvitað er þetta háð fjármögnun Norðuráls og þess vegna erum við að uppfæra samninginn til þess að þeir geti betur fjármagnað sig. Þetta ætti að auka líkur á að fjármögnun gangi eftir og við höfum góðar vonir um að það gangi eftir því þeir bankar sem ætla að lána í þetta verkefni eru þeir bankar sem lánuðu Norðurál á sínum tíma í Hvalfirði. Það er til margs vinnandi að koma þessu af stað miðað við ástandið í dag. Þetta gæti verið lykilatriði fyrir viðsnúning á Íslandi ef það tækist,” sagði Guðlaugur.