Orkuveita Reykjavíkur vinnur nú að byggingu 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar, sem er líklega stærsta, einstaka mannaflsfreka framkvæmd sem stendur yfir í landinu. Virkjunin er hins vegar ekki fjármögnuð að fullu til langs tíma. Orkuveita Reykjavíkur hefur vilyrði fyrir langtímafjármögnun verkefnisins frá Evrópska fjárfestingarbankanum.

Í tilkynningu frá OR vegna ummæla umhverfisráðherra kemur fram að fjármögnun bankans næði einnig til helmings Hverahlíðarvirkjunar, sem er ein af forsendum atvinnuuppbyggingar í Helguvík. Með Stöðugleikasáttmálanum hefur ríkisstjórn Íslands skuldbundið sig til að veita verkefninu brautargengi.

Ætlunin að bæta við tveimur háþrýstivélum

Áætlað er að byggja rafstöð sem framleiðir 300 MWe af rafmagni og varmastöð sem afkastar allt að 400 MWth. Markmið virkjunarinnar er að mæta aukinni eftirspurn atvinnuvega og almennings eftir raforku og varma. 90 MWe rafstöð var gangsett haustið 2006 og 33 MWe lágþrýstivél gangsett í nóvember 2007. Þá voru tvær 45 MW rafstöðvar teknar í notkun síðla árs 2008.  Núverandi framleiðslugeta er því 213 MWe en áætlað er að bæta við tveimur háþrýstivélum.