

Hlutfall nemenda við framhaldsskóla sem útskrifast fjórum eftir nám er að jafnaði 60%, en hjá innflytjendum sem flytja til landsins eftir 7 ára aldur er hlutfallið helmingi lægra eða 32%. Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi frá árinu 2003, það var 44,2% fjórum árum seinna, en 60% eins og áður segir í fyrra fyrir þá sem hófu nám fjórum árum fyrr.
Brautskráningarhlutfallið hefur ekki mælst hærra í tölum Hagstofu Íslands en nú, en þær byggja á þeim sem höfðu útskrifast á síðasta ári eftir að hafa hafið nám haustið 2015. Hlutfallið tók stökk frá árinu 2018, þegar það var 55,6% enda útskrifuðust þá stórir hópar með stúdentspróf í kjölfar styttingar framhaldsskólans með bæði þriggja og fjögurra ára nám að baki.
Hlutfall fyrstu og annarra kynslóðar innflytjenda sem komu til landsins fyrir 7 ára aldur og hafa útskrifast innan fjöggurra ára er þó svipað og Íslendinga allra, eða 57,8% meðal fyrstu kynslóðar og 50% meðal annarra kynslóðar innflytjenda. Af þeim Íslendingum sem ekki teljast til innflytjenda höfðu 62,1% brautskráðst innan fjögurra ára.
Staðan er svo þveröfug fyrir starfsnám, en þar var brautskráningarhlutfall innflytjenda hærra en heildarmeðaltalið, þó munurinn væri minni. Þannig höfðu 40,3% allra þeirra sem skráðu sig í starfsnám haustið 2015 útskrifast fjórum árum seinna, en á meðal innflytjenda sem fluttu til landsins fyrir sjö ára aldur var hlutfallið 44% en 43% meðal þeirra sem fluttu eftir það.
Þegar bæði fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur eru teknir saman er hlutfall þeirra sem höfðu útskrifast fjórum árum eftir að hófu nám í dagsskóla haustið 2015 komið í 36%, sem er hæsta brautskráningarhlutfall þessa hóps á þessari öld.
Alls voru innflytjendur sem hófu nám haustið 2015 320, en eingöngu 44 tilheyrðu annarri kynslóð innflytjenda og 45 voru innflytjendur sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur. Á móti kemur að hæsta brautskráningarhlutfallið er meðal nýnema fæddir erlendis en með íslenskan bakgrunn eða 73,9% þeirra höfðu útskrifast haustið 2019 af þeim sem hófu nám haustið 2015.
Alls höfðu 62,4% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn útskrifast og rúm 55% þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga erlent foreldri. Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast úr námi óháð bakgrunni. Alls höfðu 68,3% allra kvenna útskrifast innan fjögurra ára og 51,4% karla. Jafnframt er úskriftarhlutfallið hærra í skólum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
Af þeim 4.359 nýnemum sem hófu nám á framhaldsskólastigi árið 2014 höfðu 60% útskrifast árið 2019, en 23% höfðu hætt námi eða tekið hlé en 175 voru enn í námi án þess að hafa útskrifast. Hlutfall þeirra síðastnefndu, það er enn í námi fjórum árum eftir upphaf náms hefur farið lækkandi, en þeir voru tæplega 28% nemenda árin 2004 og 2005, en 17% nú.