Um þrír af hverjum fjórum Íslendingum, eða 76%, sagði kaup sín á ferðalögum hafa minnkað í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar og rúmlega helmingur sagði viðskipti sín við skyndibitastaði, eða 52%, og aðra veitingastaði, eða 55%, hafa minnkað.

Þá sagði tæpur fjórðungur, eða 24%, að matarkaup sín hafi aukist með útbreiðslu COVID-19 og rúmur þriðjungur, eða 38%, sagði kaup sín á hreinlætisvörum hafa aukist.

Þetta kemur fram í nýrri kórónuveirukönnun MMR sem var nú gerð í annað sinn, en hún var framkvæmd dagana 3. til 7. apríl 2020 og var heildarfjöldi svarenda 987 einstaklingar, 18 ára og eldri. Séu niðurstöður könnunarinnar bornar saman við samskonar mælingu frá miðjum mars kemur í ljós að nokkur sígandi varð í breytingum á neysluvenjum í öllum vöruflokkunum.

Mestur mældist samdrátturinn milli mars og apríl í kaupum á mat á skyndibitastöðum sem dróst saman um 21 prósentustig - samdráttur sem kom þá til viðbótar við þann 31% samdrátt sem mældist í mars.

Öllu minni breytingar mældust á milli mánaða hvað varðar fjölda þeirra sem hafði aukið kaup úr tilteknum vöruflokkum. Þó vakti athygli að hlutfall þeirra sem sögðust hafa aukið kaup á matvörum í netverslunum jókst töluvert milli mars og apríl - eða um 7 prósentustig.