Blaðamaður kannaði eftirspurnarhlið vinnumarkaðarins nánar byggt á greiningu á gögnum frá Alfreð, stærsta atvinnuleitarmiðli landsins. Suðurnes hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum hvað varðar atvinnumál. Í lok mars voru 3.294 skráðir atvinnulausir á svæðinu samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar, en þar af var ríflega helmingur með grunnskólanám eða sambærilegt sem efsta menntastig.

Sjá einnig: Eftirspurn eftir störfum minnkað

Meðalfjöldi umsókna um störf sem voru án skilyrða um menntun eða sérstök réttindi á Suðurnesjum dróst saman um 14% á fyrsta ársfjórðungi 2021 samanborið við sama tímabil á fyrra ári, en á sama tímabili ríflega fjórfaldaðist meðalfjöldi atvinnulausra með lægsta menntunarstig. Fjöldi auglýstra starfa á tímabilinu dróst saman um 38% milli ára og heildarfjöldi umsókna dróst saman um 47%.

Meðalfjöldi umsókna um störf án skilyrða um menntun á Suðurnesjum jókst um 47% á síðustu þremur ársfjórðungum 2020, samanborið við sama tímabil á fyrra ári. Á sama tímabili jókst meðalfjöldi atvinnulausra með lægsta menntunarstig um 157% milli ára. Heildarfjöldi auglýstra starfa á svæðinu dróst saman um 70% á tímabilinu og heildarfjöldi umsókna um sama hlutfall.

Minnkuð eftirspurn atvinnulausra með lægsta menntastig á Suðurnesjum eftir viðeigandi störfum á svæðinu á fyrsta ársfjórðungi, hvort sem litið er til meðalfjölda eða heildarfjölda umsókna, er athyglisverð í ljósi þess mikla atvinnuleysis sem þar er.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .