Ef ferðinni er heitið til útlanda á næstunni er nú úr helmingi fleiri flugfélögum að velja. Einnig fjölgar áfangastöðunum töluvert þessa fyrstu daga mánaðarins. Þessu greinir Túrist i frá.

Að jafnaði hafa átta flugfélög boðið upp á reglulegar ferðir til og frá Keflavíkurflugvelli í vetur, en í gær og í dag bætast fjögur flugfélög við hópinn. Flugfélögin eru hin þýsku Airberlin og Lufthansa, hið bandaríska Delta og spænska lággjaldaflugfélagið Vueling. Flugfélögin hafa hingað til hafið sumarvertíð sína hér á landi í byrjun júní en í ár hefst áætlunin mánuði og endar síðar. Auk þess aukast umsvif þeirra allra töluvert frá því í fyrra.

Tveir áfangastaðir bætast við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar nú í byrjun mánaðar, Barcelona og Dusseldorf. Vueling flýgur frá Katalóníu og Airberlin frá Dusseldorf. Áætlunarflug þýska flugfélagsins til Berlínar hefst einnig um helgina en yfir veturinn er WOW air eitt um þá flugleið. Delta og Lufthansa munu veita Icelandair samkeppni um farþega á leið til og frá New York og Frankfurt en þetta verður í fyrsta skipti sem Lufthansa býður upp á áætlunarflug þaðan. Fleiri borgir munu á næstu vikum bætast við leiðakerfi Vueling, Airberlin og Lufthansa hér á landi.

Um mánaðarmótin hefst einnig áætlunarflug Icelandair til Brussel, Billund, Gautaborgar, Zurich og Vancouver og Baltimore-Washington flugvöllur bætist við leiðakerfi WOW air. Síðar í maí fjölgar svo áfangastöðunum enn frekar og nokkur erlend félög hefja þá sumarflug sitt til Íslands.