*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 3. nóvember 2019 15:04

Helmingi fleiri taka bætur erlendis

50% fleiri þyggja íslenskar atvinnuleysisbætur meðan leita að vinnu erlendis. Tveir þriðju eru pólskir ríkisborgarar.

Höskuldur Marselíusarson
Pólskir ríkisborgarar hafa hjálpað mikið til við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi síðustu ár og eru þeir um 42% erlendra ríkisborgara í landinu en 66% þeirra sem nýtt hafa sér Evrópureglur til að þiggja íslenskar bætur meðan leita sér að vinnu erlendis.
Haraldur Guðjónsson

Áður en atvinnuleysi fór að aukast hér á landi hafði þeim sem nýta sér EES reglur til að vera á íslenskum atvinnuleysisbótum erlendis fjölgað hratt. Á sama tíma hefur þeim sem nýta sér samsvarandi rétt til að leita sér vinnu hér á landi um leið og þeir þiggja bætur frá erlendum ríkjum fækkað. Frá árinu 1994 hafa 1.458 nýtt sér þá heimild hér á landi, þar af eru 932, eða 64% þeirra, danskir ríkisborgarar. Á móti hafa samtals 8.934 leyfi fyrir töku íslenskra bóta erlendis verið gefin út til ríkisborgara EES ríkja frá árinu 1994.

Þeim sem fá íslenskar atvinnuleysisbætur erlendis hefur fjölgað um 55% fyrstu 9 mánuði ársins miðað við allt árið í fyrra, eða í 978 miðað við 630 árið 2018. Fjölgunin milli áranna 2017 og 2018 nam 50%, úr 420 í 630, en milli áranna 2016 og 2017 stóð fjöldi þeirra nánast í stað.

Skilyrðið fyrir töku íslenskra atvinnuleysisbóta erlendis er að verið sé að leita að vinnu erlendis, en jafnframt þarf viðkomandi að hafa verið atvinnulaus hér á landi í fjórar vikur áður en farið er út og ekki hafa hafnað atvinnutilboði. Fjölgun þeirra sem leituðu erlendis eftir atvinnu virðist hafa átt sér stað áður en atvinnuleysið tók við sér hér á landi, sem gæti skýrst af því að erlendir ríkisborgarar finni fyrst fyrir samdrættinum. Meðalatvinnuleysið fyrstu 6 mánuði þessa árs nam 4,2%, en á árin þrjú þar á undan hafði atvinnuleysið lækkað hratt, úr 3,0% að meðaltali árið 2016 í 2,8% árið 2017 og 2,7% í fyrra.

Þrátt fyrir það fjölgaði erlendum ríkisborgurum hér á landi um 5,8% frá 1. desember í fyrra þangað til 1. júlí í ár. Fjölgun pólskra ríkisborgara, sem eru langstærsti hópurinn, nam 3,7%, og voru þeir þá 19.909 talsins hér á landi, eða ríflega 42,6% allra þeirra ríflega 46,7 þúsund erlendra ríkisborgara sem búa í landinu.

Þó að réttur til atvinnuleysisbóta sé mjög mismunandi milli EES-landanna, og hvernig hann er áunninn sömuleiðis, þá veita Evrópureglur atvinnuleitendum heimild til að flytja réttindi á milli landa, með svokölluðu U1 vottorði. Í þeim tilvikum fer greiðslan fram í gegnum vinnumálastofnanir viðkomandi landa en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geta atvinnuleitendur fengið greiðslur frá því landi sem unnið var til réttindanna í þrjá mánuði, og fá þeir þá svokallað U2 vottorð.

Af öllum U2 vottorðunum sem hafa verið gefin út hér á landi (voru í öðru formi fyrir reglubreytingar 2012) hafa 3.770 þeirra verið gefin út til einstaklinga sem fóru til Póllands, eða ríflega 42% allra vottorðanna, sem rímar algerlega við hlutfall ríkisborgara frá því landi meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi.

Hins vegar hefur hlutfall pólskra ríkisborgara af þeim sem sækja þessi vottorð aukist mikið síðustu ár, samhliða fækkun Dana sem voru stærsti hópurinn framan af. Þannig hafa tvö af hverjum þremur vottorðanna, eða 66% þeirra, verið gefin út til pólskra ríkisborgara það sem af er ári og allt árið í fyrra, árið 2017 var hlutfallið 62%, 52% árið 2016 en á milli áranna 2009 til 2015 var hlutfallið um og undir helmingur flest öll árin.

Gæti nálgast milljarð í ár

Ekki kemur fram í gögnunum sem fengin voru frá Vinnumálastofnun hve lengi bæturnar eru þegnar. Grunnatvinnuleysisbætur hér á landi nema rétt tæplega 280 þúsund krónum á mánuði (þær eru 70% tekjutengdar upp að 441 þúsund króna hámarki fyrstu þrjá mánuðina, utan fyrstu tveggja viknanna), og er mögulegt að fá þær í tvö og hálft ár eftir að hafa unnið fulla vinnu í eitt ár. Ef allir sem þegið hafa slíkar bætur erlendis fengju fullar bætur án tekjutengingar alla þrjá mánuðina næmi upphæðin fyrstu níu mánuði ársins tæplega 821 milljón íslenskra króna.

Á sama tíma nema fullar atvinnuleysisbætur fyrir þá sem hafa unnið fulla vinnu í Póllandi milli 5 og 20 ár 847,80 zlotys, eða ríflega 27 þúsund krónum fyrstu þrjá mánuðina, en síðan lækkar það niður í 665,70 zlotys eða ríflega 21 þúsund krónur. Þeir sem unnið hafa lengur en 20 ár fá 20% álag, en þeir sem unnið hafa skemur en 5 ár fá einungis 80% af upphæðinni.

Auk þessa ríflega tífallda munar milli bóta í löndunum þá má sjá að hér á landi námu meðallaun fullvinnandi launamanna 721 þúsund íslenskum krónum á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar, meðan miðgildi launa var 632 þúsund krónur.  Hins vegar námu meðallaun í Póllandi á öðrum ársfjórðungi þessa árs um 4839 zlotys, eða sem samsvarar ríflega 156 þúsund krónum.

Það þýðir að þeir sem unnið hafa í eitt ár hér á landi geta fengið tæplega 39% af meðallaunum á Íslandi í atvinnuleysisbætur, eftir fyrstu þrjá tekjutengdu mánuðina, meðan í Póllandi er samsvarandi upphæð 532,60 zlotys eða 17.250 krónur, sem samsvarar 11% meðallauna þar í landi.

Hins vegar nema byrjunarlaun samkvæmt kjarasamningum Eflingar, tæplega 284 þúsund krónum hér frá 1. apríl. Öfugt við hér á landi eru formleg lágmarkslaun í Póllandi og lofaði stjórnarflokkur landsins fyrir kosningarnar í haust að hækka þau úr 2.250 pólskum zlotys á mánuði, sem samsvarar tæplega 73 þúsund krónum í 4.000 zloty í árslok 2023.

Fara oftar en einu sinni

Jóngeir H. Hlinason, hagfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir stofnunina hafa ýmsar leiðir til að fylgjast með því að þiggjendur íslenskra atvinnuleysisbóta séu staddir á landinu jafnvel þótt skráningin fari fram rafrænt.

„Að sjálfsögðu eru svo alltaf einhverjir sem fara oftar en einu sinni út í leit að vinnu, með bótarétt frá Íslandi, það er staðreynd sem við vitum af, en það er réttur sem fólk hefur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum,“ segir Jóngeir spurður hvort það sé algengt að farið sé út á ný eftir að þriggja mánaða tímabilið er liðið.

Til þess þarf viðkomandi hafa verið á Íslandi í 6 mánuði að lágmarki og unnið í það minnsta 3 af þeim. „Síðan þarftu að vera komin aftur innan sjö virkra daga eftir þessa þrjá mánuði til þess að endurvekja rétt þinn hér.“