Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði skilaði þrefalt meiri hagnaði á síðasta ári en árinu 2018. Fyrirtækið hefur varið 14 milljörðum króna síðastliðin sex ár til þess að styrkja stöðu sína. Árið 2019 er besta ár í sögu félagsins.

Þær fjárfestingar sem um ræðir eru kaup á bolfiskheimildum sjálfvirknivæðing bolfiskvinnslunnar. Eins var hluta hagnaðarins varið til kaupa á uppsjávarskipinu Hoffelli fyrir sex árum og til að standa straum af byggingu nýrrar 7.000 tonna frystigeymslu og til endurnýjunar tækjabúnaðar í fiskimjölsverksmiðjunni.

Uppgjör fyrirtækisins sýna að veltufé frá rekstri undanfarin sex ár nemur um 10 milljörðum króna og að á síðustu þremur árum hafa afköst vinnslunnar aukist um 100% með sama starfsmannafjölda. Nýlega kom fram að hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar eftir skatta árið 2019 var 2.067 milljónir króna samanborið við 700 milljónir árið 2018.

Tekjur Loðnuvinnslunnar á síðasta ári voru 12.816 milljónir kr. sem er 8% aukning frá fyrra ári. Veltufé frá rekstri var 2.678 milljónir á móti 1.533 milljónum 2018. Eigið fé Loðnuvinnslunnar í árslok 2019 var 9.918 milljónir.

Allar deildir gengið vel

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem er langstærsti hluthafi Loðnuvinnslunnar með 83% hlut, segir að mikil aukning hagnaðar milli ára skýrist meðal annars af því að gengi íslensku krónunnar veiktist verulega á seinni hluta árs 2018 og gengistap þess árs hafi verið 478 milljónir kr. Veik staða krónunnar á síðasta ári hafi unnið með fyrirtækinu og sjávarútvegnum sem atvinnugrein.

„Gengi krónunnar var okkur hagstætt á síðasta ári og allar deildir fyrirtækisins gengu vel. En það varð loðnubrestur og þar með vantar um það bil 2,5 milljarða króna inn í veltuna. En það sem við höfum umfram marga aðra er að við höfum verið að styrkja okkur í bolfiski. Það fellur því aldrei úr dagur í vinnslunni hjá okkur jafnvel þótt engin loðna berist á land,“ segir Friðrik Mar.

Friðrik Mar segir að Loðnuvinnslan hafi haft þá stefnu að styrkja sig í bolfiski einmitt í þeim tilgangi að draga úr sveiflum í veiðum og vinnslu. Góð afkoma Loðnuvinnslunnar undanfarin ár hefur nýst fyrirtækinu í þessum tilgangi. Fyrirtækið hefur á síðastliðnum sex árum keypt til sín aflaheimildir upp á 4.000 tonn af þorski. Á síðastliðnum þremur árum hefur fiskvinnslu Loðnuvinnslunnar verið breytt svo um munar með mikilli sjálfvirkni- og tæknivæðingu. Þegar upp er staðið er hún 100% afkastameiri en fyrir þremur árum með sama mannfjölda.

Fjárfest fyrir milljarð

„Við erum þeirrar skoðunar að ef fyrirtæki tæknivæðast ekki verða þau ekki samkeppnishæf. Það er lykilforsendan fyrir uppbyggingu til framtíðar. Sjálfvirkni- og tæknivæðingin felst í mörgum þáttum. Við byrjuðum á því að kaupa stóran lausfrysti fyrir fjórum árum. Við fjárfestum í tveimur vatnaskurðarvélum frá Völku og heildarkerfi sem meðal annars pakkar fiskinum sjálfvirkt í frauðplastkassa. Síðastliðið haust bættust síðan við tvær flæðilínur með skoðunarstöð. Áður höfðum við endurnýjað allar flökunarvélar, hausara og roðdráttarvélar. Þetta er í allt fjárfesting upp á um einn milljarð króna,“ segir Friðrik Mar.

Hann segir að allt hafi þetta verið unnið í áföngum yfir lengri tíma. Hann segir að forsendurnar fyrir sjálfvirkni- og tæknivæðingu fyrirtækisins hafi verið fjárfestingar í auknum bolfiskkvóta.

Sama magn og fyrir Covid

Á Fáskrúðsfirði  bjuggu 742 í janúarbyrjun 2019. Hjá Loðnuvinnslunni starfa 150 manns eða nærri 20% af íbúafjöldanum, þar af um 60 manns í fiskvinnslunni. Aðrir eru á sjó, í fiskimjölsverksmiðjunni, vélsmiðjunni og rafmagnsverkstæðinu eða við síldarsöltun sem Loðnuvinnslan er ein um að sinna hér á landi.

Loðnubrestur tvö ár í röð er áfall fyrir hvaða sjávarbyggð sem er. Friðrik Mar segir að í loðnunni felist uppgrip, jafnt fyrir fyrirtæki og starfsfólk. Það sem ekki hefur verið fryst af loðnu hefur verið brætt í fiskimjölsverksmiðjunni sem er um 85% af loðnunni þegar hrognin hafa verið tekin frá. En fyrirtækinu hefur auðnast að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem loðnubresturinn ella hefði haft með því að geta haldið uppi fullri vinnslu á bolfiski.

Óttast var að Covid-faraldurinn myndi leika markaði fyrir bolfiskafurðir grátt. Sú varð einnig raunin en þó ekki til langs tíma. Á fyrstu viku eftir lokun veitingastaða og samkomubanns á helstu mörkuðum í marsmánuði datt sala á ferskum þorskhnökkum Loðnuvinnslunar niður um 90%. Í annarri vikunni var samdrátturinn 50% frá því sem salan hafði verið frá því fyrir Covid auk þess sem verðið hafði farið niður um 15%.

„Nú má segja að við séum að flytja út sama magn og fyrir Covid og verðlækkunin hefur að talsverðu leyti gengið til baka. Við njótum líka góðs af því núna að Norðmennirnir eru farnir út af markaðnum að talsverðu leyti. Þeir veiða nánast allt sitt á skömmum tíma og lítið framboð er frá þeim þess utan. Markaðir eru aðeins að opna en það vantar enn talsvert upp á að ástandið geti talist eðlilegt í Bretlandi.“

Friðrik Mar segir of snemmt að spá fyrir um afkomuna á þessu óvenjulega ári. Miklu máli skipti hvernig makrílveiðar og vinnsla gangi. Það sem af er þessu ári og einnig í fyrra hafi mjöl- og lýsisverð verið mjög hátt. Perúmenn hafi nú þegar veitt 60% af 2,4 milljóna tonna ansjósukvóta sínum. Það skipti máli fyrir afkomuna í hvaða magni þeirra veiðar enda. Þannig séu margir óvissuþættir sem geri það erfitt að spá fyrir um afkomuna á þessu ári.