Samkvæmt viðbragðsáætlunum stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar stefnir í rúmlega 90 milljarða króna viðbótarfjárfestingar ríkissjóðs á þessu ári í stað 74 milljarða króna samkvæmt núgildandi fjárlögum að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman.

Það samsvarar 22% aukningu frá áður áætluðum útgjöldum til uppbyggingar innviða, en í kjölfar áætlunarinnar samþykkti Alþingi tímabundið fjárfestingarátak samhliða fjáraukalögum sem juku útgjöld um 25,6 milljarða króna í ár.

Það þýðir að fjárfestingaraukningin milli ára nemur 45% því á síðasta ári nam fjárfesting ríkissjóðs 62 milljörðum króna í ýmis konar innviðauppbyggingu. Þar af eiga ríflega þriðjungur, eða 36% viðbótarinnar að fara til samgöngumannvirkja, en um 11% fari til annarra innviðaframkvæmda þannig að tæplega helmingur fer í beina innviðauppbyggingu.

Í heildina var opinber fjárfesting það ár samkvæmt bráðabirgðauppgjöri þjóðhagsreikninga, 102 milljarðar króna, eftir tæplega 6 milljarða króna samdrátt frá fyrra ári. Þá var reyndar 10 milljarða yfirfærsla Hvalfjarðarganga til Ríkissjóðs inn í útreikningunum.

Sveitarfélögin á landinu hyggjast svo flýta framkvæmdum inn á þetta ár fyrir 15 milljarða króna, en í fyrra námu heildarfjárfesting þeirra í innviðum 43 milljörðum króna, þannig að flýtingin er um þriðjungur af því, en eftir umsögn SÍS hefur verið gerð sú breyting á upphaflegum tilllögum að sveitarfélögin fái einnig endurgreiðslu virðisaukaskatta vegna framkvæmda.

Samanlagt gerir þetta því um 105 milljarða fjárfestingar á árinu, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um felur viðbragðsáætlun stjórnvalda í sér ýmis konar ívilnanir fyrir fólk og fyrirtæki, eins og allt að 70% ríkisábyrgð brúarlána , en ýmsir umsagnaraðilar hafa annað hvort ekki talið nóg að gert, spár of bjartsýnar eða bent á það sem betur megi fara við upphaflegum tillögum.

Töluverð gagnrýni hefur hins vegar heyrst á verkalýðshreyfinguna síðustu daga frá hagsmunaaðilum í atvinnurekstri því hún hefur, öfugt við í síðustu kreppu, ekki ljáð máls á því að halda aftur af umsömdum launahækkunum eða bregðast við með öðrum tímabundnum aðgerðum, meðan á ástandinu vegna veirufaraldursins stendur.