Elsta sjóðstýringarfélag landsins, Íslandssjóðir ehf., dótturfélag Íslandsbanka, hagnaðist um 278 milljónir króna á síðasta ári, en hagnaður verðbréfa- og fjárfestingarsjóða í stýringu félagsins nam 5,3 milljörðum króna á árinu. Jókst hagnaður félagsins um rétt rúmlega helming frá árinu 2017 þegar hann nam 183 milljónum króna, en á sama tíma dróst hagnaður sjóðanna saman um fimmtung, úr 6.684 milljónum árið 2017.

Hreinar rekstrartekjur Íslandssjóða á síðasta ári námu 1.465 milljónum króna, sem er aukning um 7,6% frá árinu 2017 þegar þær voru 1.361 milljónir, meðan rekstrargjöld drógust saman úr 1.125 milljónum í 1.117 milljónir. Alls voru 266,5 milljarðar króna í stýringu félagsins í árslok, eigið fé þess nam 2.275 milljónum sem er er aukning um tæplega 4,4% frá ársbyrjun þegar það var 2.180 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var 65,1% í árslok.

Allir skuldabréfasjóðir sem og blandaðir sjóðir í stýringu félagsins skiluðu jákvæðri ávöxtun á árinu 2018, en að auki skilaði IS Sértryggð skuldabréf VTR bestu ávöxtun allra sértryggðra sjóða á landinu. Fleiri sjóðir Íslandssjóða voru jafnframt í efstu sætum í sínum flokki samkvæmt flokkun Keldunnar að því er segir á vefsíðu félagsins .

Félagið lauk á árinu söluferli á öllu eignasafni fasteignafélagsins Fast-1 sem rekið er af Íslandssjóðum. Einnig var innleidd stefna um ábyrgar fjárfestingar sem að sögn Kjartans Smára Höskuldssonar framkvæmdastjóra Íslandssjóða einkenndu árið ásamt þróun á nýjum fjárfestingarkostum tengdum samfélagsábyrgð.

„Við kynntum til leiks fyrsta græna skuldabréfasjóð landsins á árinu og hlaut sjóðurinn góðar viðtökur meðal sparifjáreigenda. Græni sjóðurinn hefur nú þegar fjárfest í spennandi skuldabréfaútgáfum á nýja íslenska græna markaðnum sem hefur byggst hraðar upp en flestir þorðu að vona,“ segir Kjartan Smári.

„Ávöxtun sjóða var almennt góð og áhersla á eignadreifingu og verðtryggðar eignir skiluðu viðskiptavinum okkar ágætri ávöxtun í krefjandi markaðsaðstæðum.“ Hjá Íslandssjóðum starfar 21 sérfræðingur í eignastýringu, tíu konur og ellefu karlar.