Tryggingafélagið VÍS hefur sent frá sér árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung og fyrstu níu mánuði ársins frá janúar til september 2014.

Hagnaður fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi nam 455 milljónum króna og dregst saman um helming milli ára, en hagnaðurinn nam 905 milljónum króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 906 milljónum króna. Er það öllu minna en á sama tímabili í fyrra þegar fyrirtækið hagnaðist um 2.043 milljónir króna.

Iðgjöld drógust einnig lítillega saman á fyrstu níu mánuðum ársins og námu nú 11.853 milljónum króna samanborið við 12.028 milljónir króna á síðasta ári.

Heildareignir VÍS í lok septembermánaðar námu 47.274 milljónum króna samanborið við 46.254 milljónir króna á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé félagsins nam 15.392 milljónum króna í lok tímabilsins en var 16.624 milljónir króna á sama tímapunkti í fyrra. Eiginfjárhlutfall var 32,6% í lok tímabils.

Arðsemi eigin fjár var 7,6% á ársgrunni samanborið við 17,6% arðsemi á sama tímabili árið 2013.

Á fyrri helmingi ársins greiddi félagið 1.831 milljónir króna í arð til hluthafa og keypti eigin bréf að nafnverði 36 milljóna fyrir um 307 milljónir króna.