Tonn af skipaolíu á heimsmarkaði hefur síðasta árið helmingast í verði á markaði í Rotterdam. Fyrir ári síðan kostaði tonnið um 900 Bandaríkjadali, en verð á markaði í Rotterdam var hins vegar 469,5 dalir á tonnið í gærmorgun. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í samtali við Fréttablaðið að breytingarnar á olíuverði komi öllum fyrirtækjum til góða. „Meðalverðið á þessum markaði undanfarin fjögur ár hefur legið yfir 900 dollurum, svo það munar um minna,“ segir Sveinn.

Hann bendir hins vegar á að erfitt sé að festa fingur á hvað lækkanirnar þýði fyrir einstök fyrirtæki sem geri sérsamninga um olíukaup. Einnig haldi styrking dollarans á móti lækkunum á hrávörumörkuðum.