Á sama tíma og heildarfjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur aukist hafa kaup útlendinga á ríkisskuldabréfum nálega helmingast frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í samantekt sem Seðlabanki Íslands hefur birt á vefsíðu sinni fyrir vefritið Kjarnann , sem borið hefur tölurnar saman við tölur fyrri ára, en á árinu 2016 nam innflæði erlends gjaldeyris á grundvelli heimildar um nýfjárfestingar 79 milljörðum króna.

Mest allt innflæði í ríkisskuldabréfum

Árið 2015 námu nýfjárfestingarnar 76,1 milljarði króna, en þar af voru 54 milljarðar í íslenskum ríkisskuldabréfum, sem sýnir að vaxtamunaviðskipti voru komin á fullt skrið.

Hins vegar virðist sem stýritæki Seðlabankans á fjárstreymi sem kynnt var til leiks í júní í fyrra hafi náð að draga úr vaxtamunaviðskiptunum miðað við þessar tölur, en á síðasta ári námu fjárfestingar í verðbréfum öðrum en hlutabréfum 29,9 milljörðum króna.

Í samantekt Seðlabankans fyrir 2016 kemur fram að:

  • Nýfjárfesting vegna innlána nam 591 milljónum kr. Þar af námu nýfjárfestingar einstaklinga 545 milljónum króna og lögaðila 46 milljónum króna.
  • Nýfjárfesting vegna kaupa á verðbréfum, öðrum en hlutabréfum, nam 29,9 milljörðum króna. Fjárfesting einstaklinga í þessum flokkum nam 981 milljónum króna og lögaðila rúmlega 28,9 milljörðum króna. Nýfjárfesting í ríkisskuldabréfum nam 28,2 mailljörðum króna og öðrum verðbréfum rúmlega 1,7 milljörðum króna.
  • Nýfjárfesting í skráðum í hlutabréfum nam um 11,1 milljörðum króna. Þar af nam fjárfesting einstaklinga 1,1 milljörðum króna. og lögaðila 10,0 milljörðum króna.
  • Nýfjárfesting einstaklinga og lögaðila í fasteignum nam um 1 milljarði króna.
  • Nýfjárfesting í atvinnurekstri nam um 30,2 milljörðum króna, þar af fjárfesting lögaðila 29,5 milljarði króna og einstaklinga 669 milljónum króna.
  • Önnur nýfjárfesting nam 6,2 milljörðum króna. Þar af fjárfestu lögaðilar fyrir 5,6 milljörðum króna og einstaklingar 609 milljónum króna.