Þrjátíu og níu manns sem starfa á skrifstofu bresku tískuvöruverslunarinnar MK One var í gær sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Samkvæmt frétt Daily Telegraph er það um helmingur starfsmanna á skrifstofu fyrirtækisins.

Eins og áður hefur verið greint frá var MK One sett í gjaldþrotameðferð í vikunni en bandaríska fjárfestingafélagið Hilco keypti tískukeðjuna MK One af Baugi fyrir tæpum þremur vikum. Kaupverðið var ekki gefið upp en breskir fjölmiðlar fullyrða að um litla upphæð hafi verið að ræða þar sem félagið var illa statt.

Deloitte hafði milligöngu um söluna fyrir hönd Baugs og nú hefur Hilco ráðið fyrirtækið til að undirbúa gjaldþrotameðferð en það var Deloitte sem framkvæmdi uppsagnirnar í gær.

Samkvæmt frétt Daily Telegraph var staðið að uppsögnunum með þeim hætti að lesin voru upp nöfn fólks á starfsmannafundi. Því fólki sem ekki var lesið upp var tilkynnt um uppsögn sína sem tók gildi þá þegar.

Haft er eftir Lee Manning, yfirmanni hjá Deloitte að það sé engin auðveld leið að segja upp fólki.

„Við reynum að höndla þetta mál af mestu varfærni en það er engin auðveld leið til í svona,“ sagði Manning.