Hagnaður ÞG verktaka ehf. nam 289,7 milljónum króna á síðasta ári, sem er um helmingslækkun frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn nam um 566 milljónum.

Velta félagsins nam 6,9 milljöðrum króna, samanborið við 8 milljarða árið 2019, en rekstrarkostnaður nam 6,6 milljörðum, í samanburði við 7,4 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins nam því 271 milljón króna og var 57,5% lægri en á fyrra ári, þegar hann nam 639 milljónum.

Eignir félagsins námu um 3,6 milljörðum króna í árslok, samanborið við 3,7 milljarða ári fyrr. Eigið fé jókst um 9,8% milli ára og nam tæpum 2,7 milljörðum en skuldir lækkuðu um 24,9% og voru 948 milljónir í árslok. Eiginfjárhlutfall félagsins jókst því á milli ára, úr 66% í 73,9%.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að faraldurinn hafi haft óveruleg áhrif á rekstur síðasta árs. Stjórn félagsins lagði til að 50 milljóna króna arður yrði greiddur til hluthafa á árinu 2021 vegna reksturs síðasta árs.