Gagnamagnsnotkun á farsímaneti landsins jókst um 54,4% á fyrri hluta ársins að því er Morgunblaðið segir frá upp úr skýrslu Pósts- og fjarskiptastofnunar. Fimmtungs aukning á símtölum í farsímum.

Fjarskiptaáskriftir í landinu eru í heildina 473.120, sem er nánast óbreyttur fjöldi frá fyrra ári, og veltan á markaðnum með þær var svipuð milli ára, þó minnkun hafi verið í tekjum af heima- og farsímum og aukning af gagnaflutningum og internetþjónustu.

Á sama tíma jókst mínútunotkun símtala í farsímum úr 462 milljónum mínútna í 577 milljónir mínútna eða um 21%. Gagnamagn um fastanetið jókst samhliða um þriðjung, það er 33%, eða úr 215.505 terabætum í 286.233 terabæti.

Lítil sem engin breyting hefur orðið á markaðshlutdeild stóru fjarskiptafyrirtækjanna á tímabilinu á áskriftum að tal- og netþjónustu. Þannig er Síminn með 36,7% af farsímaáskriftum, Nova með 32,9% og Vodafone með 26,8%, meðan hlutur annarra fyrirtækja jókst úr 2,7% í 3,5%.