Hlutabréf í breska bankanum Northern Rock féllu um 7% í gær í kjölfar þeirra fregna um helgina að líkur væru á að örlög bankans fælust í þjóðnýtingu. Fjölmiðlar sögðu frá því að fjármálaráðuneytið hefði tryggt að Ron Sandler, sem er þekktur fyrir að hafa fengið það verkefni að stýra Lloyd-tryggingafélaginu í London út úr ógöngum á tíunda áratug nýliðinnar aldar, yrði fenginn til að stjórna bankanum, verði hann þjóðnýttur.

Óvissa hefur ríkt um framtíð Northern Rock síðan hann lenti í miklum vandræðum í september: Þá lokaðist fyrir aðgang bankans að fjármagni og síðan þá hefur hann þurft að fá lánaða 25 milljarða sterlingspunda frá Englandsbanka. Upphæðin hefur dregið úr líkum á að fjárfestar geti fjármagnað yfirtöku bankans en tveir hópar hafa sýnt því áhuga. Annars vegar er um að ræða hóp fjárfesta kringum Virgin Group og hins vegar einkafjárfestingarfélagið Olivant.

Engin samstaða er meðal hluthafa Northern Rock um hvort tilboðið sé fýsilegra og hvernig æskilegt sé að standa að útfærslu á yfirtöku bankans. Tveir vogunarsjóðir hafa í krafti 18% eignarhlutar í bankanum boðað til sérstaks neyðarfundar í dag þar sem reynt verður að ná sátt um framtíð bankans. Fram kemur í frétt Financial Times að fréttir um mögulega þjóðnýtingu Northern Rocks séu til marks um vaxandi þrýsting stjórnvalda á að framtíð bankans skýrist sem fyrst. Alistair Darling fjármálaráðherra sagði á breska þinginu í síðustu viku að hann kysi helst að bankinn yrði seldur til einkaaðila en hins vegar væri þjóðnýting möguleiki. Financial Times hefur heimildir fyrir því að helmings líkur séu á Northern Rock komist í eigu ríkisins.

Fram kemur í breska blaðinu Telegraph að björgunaraðgerðir á Northern Rock gætu á endanum kostað hvern einasta skattgreiðanda 1800 sterlingspund og er þá miðað við að heildarkostnaður vegna þjóðnýtingar verði 50 milljarðar punda. Stjórnarandstaða íhaldsmanna hefur gagnrýnt ríkisstjórn Verkamannaflokksins harðlega vegna framgöngu hennar í málefnum Northern Rock. David Cameron, leiðtogi íhaldsmanna, segir að þjóðnýting bankans yrði til marks um mestu "niðurlægingu og mistök ríkisstjórnarinnar". Philip Hammond, skuggaráðherra fjármála, segir jafnframt að þjóðnýting myndi grafa undan stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar.