Um helmingur landsmanna er andvígur inngöngu Islands í Evrópusambndi og rétt tæpur þriðjungur landsmanna er hlynntur. Þetta er niðurstaða könnunar sem Capacent Gallup vann fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

„Af þeim sem sem segjast munu kjósa Framsóknarflokkinn, ef gengið yrði til kosninga nú, eru 85% andvígir inngöngu í ESB, 77% þeirra sem kjósa myndu Sjálfstæðisflokkinn og 44% kjósenda VG eru andvígir inngöngu Íslands í ESB. Athygli vekur að þeir sem myndu skila auðu eða ekki mæta á kjörstað ef nú yrði gengið til alþingiskosninga eru almennt andvígir inngöngu. Það sama má segja um þá sem nú myndu kjósa flokk eða framboð sem ekki á fulltrúa á Alþingi. Í þeim hópi eru 54% andvíg en 37% hlynnt aðild að sambandinu,“ segir í tilkynningu frá Heimssýn.

Samkvæmt könnuninni eru 42% Reykvíkinga andsnúnir aðild að ESB en 41% borgarbúa er hlynntur aðild. „Könnunin undirstrikar það sem oft hefur áður komið fram að Íslendingar vilja vera frjáls og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Beiðni um inngöngu Íslands í ESB á því að afturkalla hið snarasta,“ segir Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar.