Handhafar um 53% útgefinna hluta í Icelandair munu hafa atkvæðisrétt á aðalfundi Icelandair Group sem fram fer á fimmtudag. Ástæðan er sú að hluthafar þurftu að skrá þátttöku sína fyrir fram og nýtti tæplega helmingur þeirra ekki þann rétt sinn. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Auglýsing um aðalfund félagsins og dagskrá hans var send Kauphöllinni þann 26. febrúar síðastliðinn. Þar var tekið fram að aðalfundurinn færi fram með rafrænum hætti og að þau sem hygðust mæta þyrftu að skrá þátttöku minnst fimm dögum fyrir fundinn. Sá frestur rann út klukkan fjögur síðdegis í gær.

Meðal þess sem liggur fyrir fundinum er að kjósa nýja stjórn en níu eru í framboði. Tilnefningarnefnd hefur gert tillögu um að Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas, Nína Johnson, Svafa Grönfeldt og Úlfar Steindórsson verði kjörin. Auk þeirra eru Martin St. George, Steinn Logi Björnsson, Sturla Ómarsson og Þórunn Reynisdóttir í framboði. Þegar framboð voru auglýst var einnig tekið fram að nauðsynlegt væri fyrir hluthafa að skrá þátttöku sína.

Sé hlutur 20 stærstu hluthafanna lagður saman kemur í ljós að þeir eiga rúm 43% í félaginu. Útgefið hlutafé er 28,4 milljarðar króna að nafnvirði en stærsti hluthafinn er Gildi – lífeyrissjóður með rétt rúmlega fimm prósent hlut.