Flugmálayfirvöld í Japan segja bilanir í tveimur Dreamliner 787-þotum frá Boeing háalvarlegar. Tvö stærstu flugfélög landsins, All Nippon Airways og Japan Airlines, hafa lagt Dreamliner-flota sínum eftir að nauðlenda þurfti tveimur þeirra. Boeing hefur fram til þessa afhent 50 Dreamliner-þotur. Flugfélögin í Japan eiga helming þeirra og því er þetta áfall fyrir flugvélaframleiðandann.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Richard Aboulafia, sérfræðingi hjá bandaríska greiningarfyrirtækinu Teal Group, að viðbrögð flugfélaganna hafi verið rétt. Hefðu flugfélögin virt að vettugi viðvaranir um bilanir í þotunum hefði tiltrú á þoturnar getað minnkað verulega.

Reuters-fréttastofan rifjar upp að listaverðið fyrir hverja Dreamliner-vél nemur 207 milljónum dollara, jafnvirði rúmra 26 milljarða króna. Flugáhugamenn og flugfélög biðu lengi eftir vélinni, sem þykir byltingakennd, enda tafðist framleiðslan og fór kostnaður við þróun hennar fram úr áætlun. Fréttastofan bendir jafnframt á að stjórnendur Boeing hafi látið undan þrýstingi að koma vélunum frá sér og látið undir höfuð leggjast að huga að öllum tækniþáttunum. Bilanirnar sem komið hafi upp kunni að vera afleiðingar af því.