Samtals voru 445 félög Kauphallarinnar í London sem lækkuðu, frestuðu eða hættu við arðgreiðslur frá 1. janúar til 24. júlí, samkvæmt rannsókn Granite Shares. Meðal fyrirtækja sem hafa hætt við eða dregið úr arðgreiðslum eru Royal Dutch Shell, Lloyds Bank, Barclays og Rolls-Royce. Financial Times segir frá .

Flestar breytingar á arðgreiðslum voru hjá fyrirtækjum í Aim hlutabréfaflokki, fyrir lítil og meðalstór vaxtafyrirtæki, en um 139 þeirra breyttu arðgreiðslum. Helmingur félaga FTSE 100 vísitölunnar, sem inniheldur hundrað félög með hæsta markaðsvirði Kauphallarinnar í London, breyttu arðgreiðslustefnu sinni sem og 108 félög FTSE 250 vísitölunnar.

Fjárhæð arðgreiðslna var þó hærri en samtala greiðslna sem féllu niður eða frestuðust annan mánuðinn í röð í júlí, að sögn Russ Mould, fjárfestingastjóra AJ Bell. Hann segir einnig að 25 fyrirtæki hafi bæst aftur í hóp arðgreiðslufyrirtækja. „Þetta tryggir ekki kröftugan bata en er góð vísbending engu að síður,“ er haft eftir Mould.