Meira en helmingur landsmanna er hlynntur því að skólagjöld verði tekin upp í háskólum samkvæmt nýrri könnun sem Viðskiptaráð Íslands lét framkvæma og sagt er frá í Fréttablaðinu í dag. Þar svaraði 51 prósent aðspurðra því til að vera alfarið, mjög eða frekar hlynnt því að háskólar yrðu fjármagnaðir að hluta til með skólagjöldum. 34 prósent voru andvíg slíkri fjármögnun háskóla en 16 prósent tóku ekki afstöðu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir enga umræðu vera um upptöku skólagjalda í háskólum í nefndinni. „Auðvitað er öll umræða holl og allt í lagi að fá rök með og á móti en hingað til hefur það verið okkar afstaða að gera það ekki, á þeim grundvelli að allir eigi að hafa jafnan aðgang að námi," segir Unnur í samtali við blaðið.

Í könnuninni kemur fram að karlmenn eru hlynntari upptöku skólagjalda fremur en konur, 53 prósent karla eru hlynnt en 33 prósent andvíg. Hins vegar eru 47 prósent kvenna hlynnt upptökunni en 34 prósent andvíg.