Framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, Erling Freyr Guðmundsson, segir að í upphafi árs hafi sá árangur náðst að helmingur íbúða landsins væri tengdur ljósleiðara og er hann  bjartsýnn á að hægt verði að ljósleiðaravæða allt landið árið 2025.

Erling freyr segir góða rekstrarniðurstöðu síðasta árs bara upphafið af því að fyrirtækið fari að uppskera vel af tugmilljarða fjárfestingum í ljósleiðarakerfum frá því að þær hófust fyrir alvöru fyrir 10 árum. Hann segir tilkomu fyrirtækisins hafa fært samkeppnina inn á ljósleiðaramarkaðinn á Íslandi.

„Ég man þegar ég tók stöðuna á sínum tíma þegar við vorum komin með ljósleiðara inn á 85 þúsund heimili, þá vorum við í 99% tilfella að koma með fyrsta ljósleiðarann inn á heimilið,“ segir Erling Freyr sem er mikill áhugamaður um að klárað verði að ljósleiðaratengja landið allt.

„Í fjöldamörg ár höfum við nú verið að leggja mun meira af ljósleiðaralínum en aðrir, þó við megum ekki gleyma því að menn höfðu verið að leggja innviði til þess að geta gert þetta mjög lengi. Það var verið að leggja röralagnir löngu fyrir árið 2000 til þess að undirbúa fyrir framtíðina, svo það má segja að ljósleiðarakerfi hafi verið lögð á Íslandi í tugi ára.

Það sem gerist árið 2007 er að fólk fer að velja í auknum mæli ljósleiðaratengingarnar heim til sín, og síðan þá hefur hlutfall þeirra hækkað á sama tíma og ný félög hafa verið að koma inn á farsíma- og nettengingarmarkaðinn, bæði þau sem nota okkar net sem og net samkeppnisaðila okkar. Svo hækkandi hlutfall ljósleiðara hefur gerst á sama tíma og samkeppnin hefur aukist.“

Náðist í upphafi ársins

Telur Erling Freyr að nú sé staðan orðin þannig að yfir helmingur heimila á landinu sé kominn með ljósleiðara inn til sín. „Nýjasta skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar er frá því í júní 2018 og þá var hlutfallið 47% á landsvísu, en ég vil meina það að núna í ársbyrjun 2019 sé Ísland eitt fyrsta landið í heiminum til að ná að tengja ljósleiðara inn á meirihluta íbúða í landinu. Þeir sem nota hann daglega og borga fyrir hann tel ég að séu nú yfir 70 þúsund heimili,“ segir Erling Freyr, en auðvitað er það þannig að ekki nýta allir það sem geta fengið til sín ljósleiðara.

„Þessi þróun er mjög hröð víða um heim, í Evrópu eru milljónir heimila tengd við ljósleiðara á ári, en ég myndi segja að við Íslendingar séum mjög framarlega. Í dag eru 135 þúsund heimili sem nota fastlínu hér á landi, og 110 þúsund þeirra geta fengið ljósleiðara til sín í dag. Þá tók ég saman þessi þrjú fyrirtæki sem hafa verið stærst í þessu, við, Míla og Tengir á Akureyri, en einnig er fullt af smærri sveitanetum út um allt land. Svo við erum komin með 81,4% en ég verð ekki ánægður fyrr en það verður klárað að allir geti tengst ljósleiðaranum.“

Fjárfest fyrir 25 milljarða

Gagnaveita Reykjavíkur skilaði á síðasta ári um 200 milljóna króna hagnaði sem var mikill viðsnúningur frá árinu 2017 þegar tapið nam um 100 milljónum króna. „Frá árinu 2007 hefur Gagnaveita Reykjavíkur fjárfest fyrir 19,1 milljarð króna, en þegar fyrirtækið var stofnað keyptum við ljósleiðaraeignir af Orkuveitu Reykjavíkur upp á 6 milljarða. Þannig að við getum sagt að við höfum fjárfest fyrir 25 milljarða,“ segir Erling Freyr.

„Inni í þeirri tölu eru svo 7,5 milljarðar króna sem félagið hefur verið að skila í handbæru fé á tímabilinu sem hefur farið beint inn í fjárfestingar, svo við stöndum nú eftir með mjög sterkan rekstur. Við tölum alltaf um nýtingarhlutfall, það er hve margir séu að nota netið, og það hefur hjálpað okkur að það er alltaf að aukast að bæði fyrirtæki og heimili nýti ljósleiðarann.

Nú er stærsta fjárfestingarárinu okkar lokið, sem var í fyrra, en á næstu fimm árum stefnum við á að klára Reykjanesbæ, Voga og Árborg. Þess utan eru auðvitað mikið af nýbyggingum  út um allan bæ, menn eru að áætla að það séu yfir 2.000 nýbyggingar á ári hverju, þannig að við verðum að bæta við einhverjum 20 þúsund heimilum á þessum tíma.“

Erling Freyr er því bjartsýnn á að viðsnúningurinn í rekstri síðasta árs sé merki um að fjárfestingarnar fari nú að skila sér. „Þessi góða afkoma sem var á síðasta ári mun bara halda áfram að aukast, þegar fjárfestingarfasanum verður að mestu lokið. Ég myndi segja að innan fjögurra eða fimm ára verðum við farin að sjá ansi góðar kennitölur í rekstri fyrirtækisins,“ segir Erling Freyr.

„Sem dæmi þá var nettó skuldsetning félagsins á síðasta ári, það eru vaxtaberandi skuldir félagsins deilt með EBITDA, komin niður í 6,6, en við fórum hæst í 7,8 árið 2017, sem er ekki óeðlilegt fyrir innviðafyrirtæki eins og okkur. Við munum síðan sjá þetta hlutfall fara mjög lækkandi á næstu fimm árum, eða niður í allt að 4, og jafnvel lægra þegar lengra fram líður. Síðan verðum við líka að muna að við erum að afskrifa ljósleiðarainnviði á 42 árum, en endingartíminn er talinn mun lengri. Svo við stöndum í dag uppi með traustan rekstur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .