Fjárfestar sem festust inni í landinu með aflandskrónur sínar þegar gjaldeyrishöft voru sett á hafa flutt helming eignar sinnar inn í íslenska banka. Þetta gerir um 200 milljarða króna.

Þetta kom fram í máli þeirra Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Þeir gátu ekki svarað því hversu stórt hlutfall erlendir aðilar eiga af innstæðum í bankakerfinu.

Fram kom á fundinum að fjárfestar eiga enn um 400 milljarða króna fasta hér. Upphaflega var fjárfestingin bundin í skuldabréfum í íslenskum krónum. Helmingur fjárhæðarinnar hefur nú verið leystur út og hafa fjárfestarnir fært féð inn í bankakerfið.