*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 8. október 2019 16:26

Helmingur krafna Azazo endurheimtist

Kröfur námu alls 813 milljónum króna en upp í þær fengust 408 milljónir.

Jóhann Óli Eiðsson
Eignir Azazo voru kyrrsettar af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fyrir tveimur árum að beiðni fyrrverandi forstjóra og stofnanda Azazo.

Tæplega 408 milljónir króna fengust upp í kröfur sem lýst var í þrotabú hugbúnaðarfyrirtækisins Azazo hf. Kröfur námu alls tæpum 813 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu.

Azazo var tekið til gjaldþrotaskipta í október 2017. Síðustu dagar félagsins voru nokkuð skrautlegir og fjallað um þá víða í fjölmiðlum. Eignir félagsins voru kyrrsettar að beiðni Brynju Guðmundsdóttur, fyrrverandi forstjóra, á haustmánuðum 2017 vegna kröfu hennar um vangreidd laun. Um tveimur vikum síðar var félagið tekið til skipta.

Eftir að félagið endaði í þroti keypti félag í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) reksturinn úr þrotabúi félagsins en sjóðurinn hafði fjárfest í félaginu fyrir um 154 milljónir króna.

Í tilkynningunni í Lögbirtingi er tilgreint að veðkröfur, tæplega 376 milljónir króna, hafi fengist greiddar að fullu. Tæplega 3,8 milljóna búskröfur fengust einnig að fullu greiddar. Forgangskröfur slöguðu yfir 60 milljónir króna en tæplega helmingur þeirra fékkst greiddur. Ekkert fékkst upp í almennar og eftirstæðar kröfur.