Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, greindi frá því að um helmingur losunar brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og svifryks í höfnum Faxaflóahafna komi frá flutningaskipum, en um þriðjungur frá skemmtiferðaskipum og afgangurinn frá fiskiskipum og öðrum skipum.

Þetta kom fram í svari hans þann 21. október síðastliðinn við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um mengun frá skemmtiferðaskipum.

„Ég tel að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar inn í þá umræðu sem hér er í gangi.“

Hann vísaði þar í skýrslur frá Faxaflóahöfnum sem undanfarin þrjú ár hafa látið reikna losun brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og svifryks frá öllum skipum, íslenskum jafnt sem erlendum, sem leggjast að bryggju í höfnum Faxaflóahafna, en það eru gamla Reykjavíkurhöfnin ásamt Sundahöfn, Grundartangahöfn og Akraneshöfn.

Nýtingartíminn stuttur

Guðmundur Ingi kom einnig inn á rafvæðingu hafna og sagðist telja æskilegt að skemmtiferðaskip notuðu rafmagn frá landi þegar þau liggja við bryggju.

„Gróft mat hefur bent til þess að kostnaður við háspennutengingar fyrir stór skip á borð við skemmtiferðaskip sé hins vegar mjög mikill og nýtingartíminn mjög stuttur sem myndi þýða að slíkt væri kannski síður hagkvæmt en margar aðrar aðgerðir í loftslagsmálum ef litið er til þessara þátta,“ sagði hann. „Það er þó þróun í tækni á þessu sviði og ég tel rétt að skoða slíka möguleika betur í samvinnu við orkufyrirtæki og aðra og til lengri tíma litið finnst mér einsýnt að raftenging eða þá annað endurnýjanlegt eldsneyti sé notað fyrir öll skip við bryggju.“

Sama dag svaraði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra annarri fyrirspurn frá Albertínu, sem snerist um raftengingu hafna.

Hún sagði stöðu raftengingar til skipa í höfnum nokkuð góða hér á landi „þegar litið er til lágspennutenginga en hins vegar er skortur á háspennutengingum sem nauðsynlegar eru stærri skipum. Tækni er ekki hindrun fyrir raftengingar til skipa en fjármögnun innviða í höfnum er lykilþáttur sem og hvatar til skipaeigenda vegna uppsetningu búnaðar.“