Á aðeins níu dögum seldust tæplega helmingur allra íbúða í nýjum turnum í Bríetartúni 9-11 sem gæti verið sölumet að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var 240 fermetra íbúð í húsunum boðin á 200 milljónir króna. Allar íbúðirnar ættu að teljast lúxusíbúðir, en ódýrasta íbúðin var seld á 40,9 milljónir króna en sú dýrasta er verðmetin á bilinu 300 til 400 milljónir króna, en óseld enn.

Pétur Guðmundsson stjórnarformaður Eyktar sem byggir turnana, sem standa við Höfðatorg, segir kaupendur líta á þetta sem góða fjárfestingu en hópurinn sé fjölbreyttur. „Sumir kaupendur eru að losa eignir og minnka við sig,“ segir Pétur, en um er að ræða alls 94 íbúðir í annars vegar 12 hæða íbúðaturni og hins vegar 7 hæða fjölbýlishús.

„Þetta er sennilega fyrsta íbúðabyggingin á Íslandi sem er varin með vatnsúðakerfi. Þá er loftræsting á efstu hæðum, gólfhiti í íbúðum og svalir eru lokaðar.“ Nú þegar hafa allar íbúðir á hæðum 1 til 8 í stærri turninum verið seldar auk einnar á 9. hæð, eða alls 33 íbúðir. Í fjölbýlishúsinu hafa 9 íbúðir verið seldar.