Helmingur hönnuða og arkitekta hafa misst helming til allar tekjur sínar vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. 75% fyrirtækja finna fyrir verulegri lækkun á tekjum vegna ástandsins og 70% verkefna hefur verið frestað, hætt eða minnkað verulega. Þetta er meðal helstu niðurstaða sem koma fram í könnun á áhrifum COVID-19 á starfsemi á sviði hönnunar og arkitektúrs. Hönnunarmiðstöð Íslands stóð fyrir könnuninni og bárust 483 svör frá stjórnendum, launafólki og sjálfstætt starfandi hönnuðum og arkitektum úr hinum ýmsu greinum.

Í könnuninni segir að um 3-4 þúsund manns starfi sem hönnuðir og arkitektar hér á landi og að velta greinarinnar nemi um 20 milljörðum á ári. Af niðurstöðunum sé ljóst að ástandið hafi haft alvarlegar afleiðingar.

Kallað var eftir tillögum að viðspyrnu, til að efla atvinnulíf á sviðinu með áherslu á gæði, sjálfbærni og virðisauka til framtíðar í könnuninni. Hér að neðan má sjá dæmi um tillögur svarenda:

  • Endurgreiðsla VSK. fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir af vinnu hönnuða og arkitekta til að fjölga, hraða og undirbúa framkvæmdir/verkefni.
  • Tryggja hag sjálfstætt starfandi launafólks og verktaka í atvinnutryggingakerfinu.
  • Afnám virðisaukaskatts af íslenskri hönnun.
  • Stóraukið framlag í hönnunarsjóð með áherslu á virðisaukandi nýsköpun, sjálfbærni, lífsgæði, endingu og gæði.
  • Bæta reglur um útboð og samkeppnir sem snúa að hönnun, arkitektúr og skapandi vinnu, m.a. með því að greiða fyrir vinnuna.

Arkitektar og hönnuðir telja að áhrif COVID-19 muni vara lengur en í sex mánuði og 40% þeirra eru að nýta hlutabótaleiðina og önnur 20% eru að leita leiða til þess.