*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 5. mars 2019 08:43

Helmingur á móti innflutningi kjöts

Frumvarp um að heimila innflutning á fersku kjöti liggur fyrir Alþingi, en flestir stuðnignsmenn stjórnarflokkanna eru á móti.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

52% þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun Zenter fyrir Fréttablaðið sögðust vera andvíg innflutningi á fersku kjöti. Þar af sögðust mun fleiri mjög andvígir eða 34,4%, en frekar andvígir 14,8%. Hins vegar var rétt tæplega þriðjungur, eða 32,1% sem voru mjög eða frekar fylgjandi innflutningi. Hvorki né svöruðu 15,6%.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra lagt fram frumvarp fyrir alþingi um að heimila innflutning á fersku kjöti. Kemur það í kjölfar úrskurðar Eftirlitsstofnunar Efta um að bannið brjóti í bága við EES reglugerðir, eins og Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á.

„Ef þessi andstaða byggir á því að fólk kjósi frekar íslenskt kjöt en innflutt þá deili ég þeim skilningi og skil mætavel þá afstöðu,“ segir Kristjá Þór. „En ef hún byggir hins vegar á spurningum um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna þá tel ég að það þurfi að koma betur á framfæri niðurstöðum sérfræðinga um þau atriði.“

Hlutfall stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, flokk ráðherrans, sem eru á móti innflutningi er sami og þjóðarinnar, eða 52% og sama með stuðningsmenn eða 32%. Hlutfall andstöðu er meira í hinum ríkisstjórnarflokkunum, 67% í Vinstri grænum, en þar eru 19% fylgjandi, en enn færri eru fylgjandi í Framsóknarflokknum, eða 10%.

Eilítið fleiri eru fylgjandi í Miðflokknum, eða 15%, en stuðningsmenn Viðreisnar og Samfylkingar eru líklegastir til að styðja innflutninginn, eða 60% og 53%. Píratar koma svo strax á eftir með 52% stuðning. Stuðningurinn er jafnframt meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni, en þar eru 45% á móti en 39% með.

Könnunin var gerð dagana 28. febrúar til 1. mars meðal íbúa landsins 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 46%, eða 1.441 af 3.100 manna úrtaki.