Að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns fjárfestingarfélagsins Norvik, gera áætlanir félagsins ráð fyrir að ríflega helmingur af rekstrarhagnaði þessa árs komi erlendis frá.

Á nýliðnu ári komu um 40% af hagnaði Norvikur-samstæðunnar erlendis frá. Þessar áætlanir ná eingöngu til rekstrarstarfsemi félaga í eigu Jóns Helga og fjölskyldu en ekki til fjárfestingarstarfsemi og þeirrar starfsemi sem fellur undir fjármálastarfsemi, s.s. Norvik Banka. Endanlegt ársuppgjör liðins árs liggur ekki fyrir ennþá. Aðspurður sagði Jón Helgi að útrás félagsins markaðist af því að innlendur markaður væri takmarkaður og ljóst að stækkunarmöguleikar væru ekki miklir. Því hefði hann ákveðið að leita fyrir sér erlendis, sem hefði reynst farsælt.

„Við höfum reynt að taka þetta í viðráðanlegum skerfum. Ef við ætlum að vaxa í einhverju þá verðum við að gera það erlendis,“ sagði Jón Helgi sem sagðist eiga von á áframhaldandi aukningu umsvifa erlendis á næstu misserum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .